hver gengur í buxunum og hver er á bleyjunni?
Ég hafði það nú kannski aðeins of gott í gær. Ég gat ekki sofnað auðvitað þegar ég fór að sofa, og var andvaka til 5 um morguninn. Skemmti mér við að horfa á indverskt sjónvarp, reyndar eru auglýsingarnar skemmtilegri en sjónvarpsefnið, en loks fann ég einhverja ameríska steypu á einni rásinni.
Ég var því frekar jetlögguð og mygluð í morgunfundunum, og ekki bætti úr skák að mér var hálf bumbult. Það mátti búast við því, meðan meltingarkerfið venst inversku gerlunum.
En í lok dagsins fór allt slen, og við enduðum daginn eftir langar fundarsetur á að taka leigubíl í næstu verslunarmiðstöð (City Center). Leigubíllinn sem keyrði okkur var loftkældur og rúmgóður og ég heyrði mér til stórkostlegrar furðu að leigubílstjórinn hafði keyrt samstarfsfólk mitt á fundinn um morguninn, síðan beðið fyrir utan í ca 8 tíma uns fundarhrinan var búin og fólk kom út. Ímyndið ykkur reikninginn við að láta Hreyfilsbíl bíða í 8 tíma!! Hér var það um 1500 krónur, og víst minna vesen en að fá annan fínan og loftkældan bíl í lok dagsins.
Hann keyrði okkur af öryggi í gegnum þessa geggjuðu umferð, og verslunarmiðstöðin var verlulega fín og ný (og mjög vestræn). Ég á nú örugglega eftir að kíkja þangað aftur, en í kvöld var ég bara að skoða og borða með nokkrum starfsfélögum.
Undir matnum var rætt um indverska hætti, og ýmislegt skondið bar á bóga. T.d. að konur borga almennt heimanmund með sér þegar þær giftast, stórar fjárhæðir, þeim ljósari maðurinn á húð þeim hærri heimanmundurinn sem þær borga. Giftingar eru yfirleitt skipulagðar af foreldrum. Svo þegar þær eru búnar að ´´kaupa´´ mennina, þá snýst þetta við, og þær hætta að vinna ef þeir vilja það, eða flytja hvert sem er sem vinnan hans krefst. Læknum er bannað að segja fólki frá kyni ófædds barns, og missa læknaleyfið ef þeir gera það, sem segir ýmislegt.
Þrátt fyrir þetta misræmi á heimilinum milli stöðu kvenna og karla er þetta ekki á vinnustöðum. Þar tíðkast ekki að borga konum og körlum mismunandi fyrir sömu vinnu, og þær eiga sömu starfsmöguleika og karlarnir, amk í tæknigeiranum. Svo fara þær heim eftir vinnu til mannanna (amk þær eiga karlmenn sem leyfðu þeim náðarsamlegast að vinna) og eru þar #2.
Væri ekki tilvalið að blanda þessu, koma með smá jafnrétti í hjónaböndin á Indlandi, og laga launamuninn og möguleikana á Íslandi? Við getum kallað það Ínslenska kerfið.
Konurnar hér eru flestar í hefðbundnum inverskum klæðnaði, kjól og alltaf buxum undir í stíl, en karlarnir eru í vestrænum (buxum og skyrtu) og yfirvaraskeggið ómissandi. Þegar ég spurði hvað væri sambærilegur indverskur klæðnaður á karlmenn var mér bent á mann á hjóli, í bara eins og bleyju. Munið eftir Gandhi? Hann gekk í hvítri dulu og nú skildi ég betur hvers vegna indverskum mönnum fannst hentugra að skipta yfir í vestræna fatamenningu. Gæti ekki séð fyrir mér karlmannsbankastarfsmenn í bleyjunni einnisaman, hvað þá lækna og lögfræðinga.
Annars eru hér fleiri störf heldur en læknar og lögfræðingar. Það eru hurðaopnarar, gangstéttasóparar, lyftuverðir, menn við sjálfvirku bílastæðisopnarana sem hafa það að atvinnu að ýta á takkann fyrir þig og rétta þér miðann sem kemur út, og fleiri skemmtileg atvinnutækifæri. Eins gott að gera þjóðfélagið ekki of skilvirkt og tæknina ekki of sjálfvirka þegar þú þarft að sjá milljarði manna fyrir atvinnu.
1 Comments:
Já ég er allavega manneskjan í bleyjunni á mínu heimili! Ég er sko númer eitt.! haha þetta er ógó fyndið. Svolítið erfitt að halda aga á bleyjunni einni...
Góða skemmtun og ekki fá matareitrun.
Post a Comment
<< Home