laugardagur
Föstudagurinn var svo skemmtilegur að laugardagurinn fór heldur seint af stað. Við fórum upp aftur til Á og A í hádegismat. Rosalega góður indverskur réttur kallað kjúklinga biryani
og var hann útbúinn af indverska kokkinum þeirra, enda tímafrekur.
Í svona mannmörgu landi er meira um þjónustustörf og stöður, og þó það komi á óvart í byrjun er það vel skiljanlegt og hreinlega nauðsynlegt, enda eru einföldustu hlutir eins og versla í matinn og borga reikninga alls ekkert einfaldir.
Eftir langa og rólega máltíð var skipt liði. Sumir fóru í gullfiskaleiðangur, en ég fór með öðrum á ströndina í Chennai. Marina Beach. Ströndin er mjög mjög breið og löng, og var mér sagt að á kvöldin væru hún hreinlega pökkuð af fólki. Það var svosem alveg nóg af fólki þarna, mikið af sölubásum. Áberandi hvað fólk var flest kappklætt, enda þykir ekki siðlegt að vera í baðfötum. Sjórinn er mjög straumharður og fæstir synda nokkuð út heldur eru bara að leika sér í flæðarmálinu. Hér og þar sáum við pör sitja saman og rabba, en ströndin er hinn óopinberi para-staður, þar sem fólk getur talað saman og kynnst svolítið, en það er mjög erfitt að gera í hinu reglusama og fjölmenna indverska samfélagi.
Seinna um kvöldið fórum við í tónlistarhús og hlustuðum á söngleikjasúpu (nokkur lög úr hinum og þessum söngleikjum) sem var alveg ágætt. Mjög mjög seint fórum við svo og fengum okkur að borða á Park hótelinu sem er nýtískulegt og fínt, og bauð upp á mjög góðan mat. Mér leist miklu betur á Park hótelið en Sheraton, þannig ef ég ætti val myndi ég velja það heldur.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home