ekkert vín í Wine Shop
Jæja, á fimmtudag fór ég loksins í "vinnuna", þ.e. á skrifstofuna í stað þess að vera á fundum á hótelinu. Ákvað líka að tékka mig út af hótelinu og gista það sem eftir væri hjá samstarfskonu minni Tinnu, sem býr í íbúð í sama húsi og skrifstofan er í. Mjög hentugt. Reyndar var önnur fundahrina á föstudaginn í öðru hóteli, en svo tékkaði ég mig út, og flutti mitt hafurtask í indverska íbúð.
Íbúðin er stór og rúmgóð, 3 svefnherbergi öll með sér baði, og mér er sagt að það væru venjulega margar indverskar fjölskyldur í svona íbúð. Það er loftkæling í næstu hverju herbergi sem er alger nauðsyn því það er mjög heitt, og mjög rakt. Gólfefnið kom á óvart, marmari á öllum gólfum. Það er víst hagkvæmasta gólfefnið.
Fimmtudagseftirmiðdaginn fór að rigna heldurbetur, þetta sem kallað er monsoon rigning, og við ákváðum að fara í bíltúr til að skoða hana í rigningu. Það kom fljótlega í ljós að ræsin höfðu ekkert undan og vatnselgurinn varð gífurlegur. Indverjar flúðu flestir inn í kaffihús og búðir, en nokkrir þrjóskuðust við og héldu áfram að selja ávexti og grænmeti þrátt fyrir að vatnið flæddi allt um kring. Á fimmtudagskvöldið smakkaði ég svo indverskt vín, en vínrækt er víst að byrja hér eftir að nokkrir tölvunarfræðingar komu til baka og tóku með sér Napa Valley plöntur. Það gengur víst vel en þeir selja aðallega á hótelin.
Indverska ríkisstjórnin er eins og sú íslenska og hefur einokun á vínsölu og hér eru Wine Shops, en það fæst ekkert vín í Wine Shop, bara bjór og viskí, enda ekkert í kúltúrnum hér að þamba vín. Margir hreinlega sem drekka aldrei dropa, enda margir múslimar á svæðinu.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home