Þveroddur
Baldur sonur minn er skemmtilegur strákur. Hann er eins og mamma sín að sumu leyti, hann á erfitt með að muna nöfn. Það hefur líka gerst að hann hafi búið til orð, t.d. hét kanilsykur einu sinni kanínusulta, þetta hljómaði amk svipað fyrir honum.
Einn daginn kom hann heim og var að segja mér frá stráki í skólanum. "Hvað heitir strákurinn?" spurði ég. "Hann heitir ummmm, hann heitir Þveroddur". Þveroddur!!! Þetta fannst mér skrýtið nafn. Ja hérna, heitir barnið Þveroddur? Já, hann hélt það. Nokkrum dögum seinna fékk ég að vita að drengurinn héti ekki Þveroddur heldur Haraldur. Það hljómaði svipað í eyrum sonar míns.
Ég á ekki mikið inni að vera að hlægja að þessu, ég er endalaust að rugla í nöfnum og þá sérstaklega samsettum nöfnum. Sum vilja alls ekki festast, fyrirgefðu Sigurgeir minn, að kalla þig Simba, Sidda, Sigurþór Geir og Sigtrygg. Það er ekki illa meint.
Þverodds saga Baldurssonar verður einhverntíman skrifuð. En þangað til dugar þessi bloggfærsla til að ég gleymi ekki Þveroddi.
1 Comments:
Frekar fyndið. :)
Post a Comment
<< Home