Harry Potter barnaafmæli - Harry Potter afmælisleikir
Þegar Sif dóttir mín varð 7 ára var ég í barnseignarfríi, bjó í Ameríku, og hafði nægan tíma til undirbúnings. Sif var mikill Harry Potter aðdáandi (var segi ég, hún er það enn) og því var ákveðið að hafa Harry Potter þema í afmælinu. Gekk ég of langt? Veit ekki, en afmælið var skemmtilegt.
Á útihurðinni: Velkomin í Hogwarts skóla og afmæli Sifjar
Við anddyrið: stóll sem börnin settust á og fengu skrautlegan hatt á hausinn. Við vorum búin að taka upp "random" upptöku af djúpri röddu að spá og spekúlega og "hmmmm, gáfur, haaa, Ravenclaw!!" og því fóru börnin í tilviljanakennda hópa, hin 4 lið Hogwarts. Við fundum merki liðanna á netinu og prentuðum út og settum á svartar plastperlufestar sem börnin fengu um hálsin. Þau voru því öll merkt sínu liði.
Næst fóru þau til Ollivanders. Hann úthlutaði þeim töfrastaf (prik sem málað var svart eða brúnt). Þetta var einn gestanna og hann tók að sér að lýsa eiginleikum stafsins af miklum móð. Svo var svæði með svörtum pappa og glimmer lími og límmiðum til að búa sér til svartan galdrahatt og föndra hatta og skreyta stafi.
Þegar allir gestir voru komnir með hatt, töfrastaf og voru í liði var hverju liði fyrir sig afhentur hvítur miði og svona penna fyrir ósýnilegt blek en á miðann hafði verið skrifuð vísbending í ratleik með ósýnilegu bleki. Þau notuðu pennann til að finna vísbendinguna á miðanum (ásamt mörgum galdraorðum) og hlupu af stað. Allir 4 hóparnir voru með mismunandi vísbendingar í ratleiknum svo þau væru nú ekki öll í kös. Eftir 4 mismunandi vísbendingar (undir húsgögnum, út í garði) voru þau komin með 5 miða samtals, og á hverjum miða var einn bókstafur til viðbótar vísbendingunni, sem þau röðuðu svo saman (stafarugl). Þá voru þau búin að leysa ratleikinn og komin með leyniorðið.
Ég notaði orð tengd Harry Potter, en man ekki lengur nákvæmlega hvaða orð það voru.
Hvert lið, með sitt leyniorð, kom svo og hvíslaði því leyniorði að mér sem stóð vörð við bílskúrinn sem var búið að breyta í "stóra salinn" það er að segja veislusalinn. Þar var diskókúla í lofti og 4 svæði þar sem ég var búin að merkja barnamatskrukkur með "galdra" efnivið í töfraformúlur sem þau áttu að búa til. Froskaaugu (M og M), snákalifur (brúnt hlaup) og svoleiðis. Uppskriftir voru á svæðinu (3 froskaaugu, hálf snákalifur...) og þau að kokka þetta af bestu list ofan í plast-fötur sem voru þá orðnar að galdrapottum. Átu og drukku svo afraksturinn og þegar þetta var búið þá fengu þau fjársjóð á silfurdiska (nammihálsfestar, brjóstsykurhringi,...) og veislu á langborði (afmæliskakan).
Eftir afmælisveisluna var "galdramaður" á svæðinu sem töfraði vasaklúta upp úr höttum og skemmti öllum veislugestum meðan ég sinnti fullorðna fólkinu pínulítið.
Undirbúningurinn var heilmikill, en veislan rosalega skemmtileg. Ég var allan tíma að stjórna og gat ekki sinnt eða talað mikið við fullorða gesti. Sumir höfðu samt verið settir í hlutverk og tóku þátt, voru Ollivander, sáu um skreytisvæðið, hjálpuðu í ratleiknum og svoleiðis. Allir skemmtu sér konunglega og afmælisbarnið allra mest. Peningalegur kostnaður var ekki mikill, en heilmikið stúss í að plana og elta uppi plasthálsfestar, prik, réttar tegundir af nammi, útbúa uppskriftir, undirbúa ratleik, skreyta bílskúrinn...
Fyrir áhugasama hvet ég eindregið til að halda Harry Potter afmæli!
Labels: afmæli, barnaafmæli, Harry Potter
1 Comments:
Myndir úr veislunni, courtesy of Hrefna. :)
http://hrefna.com/dagbok/id466.htm
Post a Comment
<< Home