Tuesday, April 09, 2013

Harry Potter barnaafmæli - Harry Potter afmælisleikir

Þegar Sif dóttir mín varð 7 ára var ég í barnseignarfríi, bjó í Ameríku, og hafði nægan tíma til undirbúnings. Sif var mikill Harry Potter aðdáandi (var segi ég, hún er það enn) og því var ákveðið að hafa Harry Potter þema í afmælinu. Gekk ég of langt? Veit ekki, en afmælið var skemmtilegt.

Á útihurðinni: Velkomin í Hogwarts skóla og afmæli Sifjar

Við anddyrið: stóll sem börnin settust á og fengu skrautlegan hatt á hausinn. Við vorum búin að taka upp "random" upptöku af djúpri röddu að spá og spekúlega og "hmmmm, gáfur, haaa, Ravenclaw!!" og því fóru börnin í tilviljanakennda hópa, hin 4 lið Hogwarts. Við fundum merki liðanna á netinu og prentuðum út og settum á svartar plastperlufestar sem börnin fengu um hálsin. Þau voru því öll merkt sínu liði.

Næst fóru þau til Ollivanders. Hann úthlutaði þeim töfrastaf (prik sem málað var svart eða brúnt). Þetta var einn gestanna og hann tók að sér að lýsa eiginleikum stafsins af miklum móð. Svo var svæði með svörtum pappa og glimmer lími og límmiðum til að búa sér til svartan galdrahatt og föndra hatta og skreyta stafi.

Þegar allir gestir voru komnir með hatt, töfrastaf og voru í liði var hverju liði fyrir sig afhentur hvítur miði og svona penna fyrir ósýnilegt blek en á miðann hafði verið skrifuð vísbending í ratleik með ósýnilegu bleki. Þau notuðu pennann til að finna vísbendinguna á miðanum (ásamt mörgum galdraorðum) og hlupu af stað. Allir 4 hóparnir voru með mismunandi vísbendingar í ratleiknum svo þau væru nú ekki öll í kös. Eftir 4 mismunandi vísbendingar (undir húsgögnum, út í garði) voru þau komin með 5 miða samtals, og á hverjum miða var einn bókstafur til viðbótar vísbendingunni, sem þau röðuðu svo saman (stafarugl). Þá voru þau búin að leysa ratleikinn og komin með leyniorðið.
Ég notaði orð tengd Harry Potter, en man ekki lengur nákvæmlega hvaða orð það voru.

Hvert lið, með sitt leyniorð, kom svo og hvíslaði því leyniorði að mér sem stóð vörð við bílskúrinn sem var búið að breyta í "stóra salinn" það er að segja veislusalinn. Þar var diskókúla í lofti og 4 svæði þar sem ég var búin að merkja barnamatskrukkur með "galdra" efnivið í töfraformúlur sem þau áttu að búa til. Froskaaugu (M og M), snákalifur (brúnt hlaup) og svoleiðis. Uppskriftir voru á svæðinu (3 froskaaugu, hálf snákalifur...) og þau að kokka þetta af bestu list ofan í plast-fötur sem voru þá orðnar að galdrapottum.  Átu og drukku svo afraksturinn og þegar þetta var búið þá fengu þau fjársjóð á silfurdiska (nammihálsfestar, brjóstsykurhringi,...) og veislu á langborði (afmæliskakan).

Eftir afmælisveisluna var "galdramaður" á svæðinu sem töfraði vasaklúta upp úr höttum og skemmti öllum veislugestum meðan ég sinnti fullorðna fólkinu pínulítið.

Undirbúningurinn var heilmikill, en veislan rosalega skemmtileg. Ég var allan tíma að stjórna og gat ekki sinnt eða talað mikið við fullorða gesti. Sumir höfðu samt verið settir í hlutverk og tóku þátt, voru Ollivander, sáu um skreytisvæðið, hjálpuðu í ratleiknum og svoleiðis. Allir skemmtu sér konunglega og afmælisbarnið allra mest. Peningalegur kostnaður var ekki mikill, en heilmikið stúss í að plana og elta uppi plasthálsfestar, prik, réttar tegundir af nammi, útbúa uppskriftir, undirbúa ratleik, skreyta bílskúrinn...

Fyrir áhugasama hvet ég eindregið til að halda Harry Potter afmæli!


Labels: , ,

Friday, December 28, 2012

Þveroddur

Baldur sonur minn er skemmtilegur strákur. Hann er eins og mamma sín að sumu leyti, hann á erfitt með að muna nöfn. Það hefur líka gerst að hann hafi búið til orð, t.d. hét kanilsykur einu sinni kanínusulta, þetta hljómaði amk svipað fyrir honum.

Einn daginn kom hann heim og var að segja mér frá stráki í skólanum. "Hvað heitir strákurinn?" spurði ég. "Hann heitir ummmm, hann heitir Þveroddur". Þveroddur!!! Þetta fannst mér skrýtið nafn. Ja hérna, heitir barnið Þveroddur? Já, hann hélt það. Nokkrum dögum seinna fékk ég að vita að drengurinn héti ekki Þveroddur heldur Haraldur. Það hljómaði svipað í eyrum sonar míns.

Ég á ekki mikið inni að vera að hlægja að þessu, ég er endalaust að rugla í nöfnum og þá sérstaklega samsettum nöfnum. Sum vilja alls ekki festast, fyrirgefðu Sigurgeir minn, að kalla þig Simba, Sidda, Sigurþór Geir og Sigtrygg. Það er ekki illa meint.

Þverodds saga Baldurssonar verður einhverntíman skrifuð. En þangað til dugar þessi bloggfærsla til að ég gleymi ekki Þveroddi.

Friday, July 27, 2012

Samanburðarhópurinn

Við höfum notað fjáhagskerfi Meniga undanfarið og þar er boðið upp á að bera okkar eyðslu saman við sambærilegan hóp. Ég er virkilega farin að leggja fæð á Samanburðarhópinn minn. Þetta fólk er mér betra á flestum sviðum, það eyðir minna í húsnæði, það talar minna í síma, það er með ódýrari tryggingar og allt eftir þessu. Fullkomlega óþolandi lið sem gerir mér gramt í geði!

Þetta fólk sem á eins fjölskyldu og ég eyðir hvorki meira né minna en 40.000 kr minna á mánuði í mat fyrir fjölskylduna! Hvernig er það hægt? Er bara núðlusúpa og spaghettí í matinn hjá Samanburðarfjölskyldunni? Er góður og hollur matur á boðstólnum hjá Sam..bu..? Eru þau öll þvengmjó og hokin af næringarleysi?

Nú ætla ég að etja kappi við Sambufjölskylduna og í næsta mánuði hef ég einsett mér að ná niður í þetta skrattans meðaltal í mat, án þess að gefa eftir í gæðum. Það gerir 3.333 kr í mat á dag fyrir 5 manna fjölskyldu, allt sem maður kaupir venjulega í matvöruverslunum.

Ready - set - go!

P.S. ljúffengar sparnaðauppskriftir óskast sem hjálpa mér að knésetja Sambu



Monday, October 05, 2009

Sítrónukjúklingur með frábærri hnetusósu (Satay Sósu)

Satay sósan sívinsæla

Fyrri hluti:
1 msk góð ólífuolía
1 msk sesamolía
1 rauðlaukur smátt saxaður
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 1/2 tsk fersk engiferrót, niðursöxuð
1/4 tsk rauðar piparflögur (krydd: crushed red pepper flakes)


Seinni hluti:
2 msk rauðvínsedik
1/4 bolli púðursykur
2 msk sojasósa
1/2 bolli mjúkt hnetusmjör (ekki crunch)
1/4 bolli tómatsósa
2 msk sherrí, (má nota púrtvín)
1 1/2 tsk lime safi (úr hálfu lime)


Eldið fyrri hluta í potti í 10-15 mínútur þangað til laukur orðinn mjúkur og gegnsær. Setjið seinni hluta útí, hrærið með písk og sjóðið í 1 mínútu. Kæla og nota kalda eða við stofuhita. Endist í nokkrar vikur í ísskáp. Þetta er um 1 ½ bolli af sósu.


Sítrónukjúklingur með Satay sósunni sívinsælu


Safi úr 4 sítrónum (ekki nota neitt annað)
¾ bolli góð ólífuolía
2 tsk milligróft salt
1 tsk nýmalaður pipar
1 msk saxað ferskt timian krydd, eða ½ tsk þurrkað
1 kg kjúklingabringur


Blandið maríneringunni og setjið yfir kjúklingabringur í skál og látið vera 6-12 stundir. Grillið kjúklinginn á grilli í 10 mínútur per hlið, kælið aðeins, sneiðið á ská í stykki sem sett eru á pinna og borðað með satay dýfu.

Monday, January 07, 2008

hús







Þegar við fluttum til baka stóð til að kaupa strax. Hinsvegar kom babb (hvað er eiginlega babb, og hvað hefur það með báta að gera?) og við ákváðum að leigja fyrst í stað. Við fundum fínt raðhús í Garðabæ og allt í fína. Svo núna fyrir jólin fengum við símhringingu og höfðum allt í einu húsnæði til 1. apríl, en ekki fram á sumar eins og við höfðum vonast til.

Jæja, við fórum að skoða, og gerðum það heldurbetur með fútti. Skoðuðum ása, mela, móa, flatir, lundir, velli, og enduðum í gili. Það leist okkur vel á, bæjarlækurinn við bakgarðinn og mjög notalegur laufskáli (orðalag frá teikningum), reyndar alveg án laufskrúðs.

Tveimur tilboðum, 3 stressköstum og 1 excelskjali seinna erum við búin að telja okkur í trú um að þetta sé hægt, og skrifum undir kaupsamning á morgun.

Þetta er fínt timburhús, og hentar okkur alveg ágætlega. Flytjum í mars. Farin að spá ískápaútsölur.












Saturday, October 20, 2007

afmælispjakkur og pastasalat


Fórum í 5 ára afmæli Finns Arnórs í dag. Þetta var rosaleg veisla, eins og þeim einum er lagið, alltaf gaman að koma í Lækjarsmárann. Drengurinn var glaður og blés öll kertin út í einu. Baldur var ekki kátur með að fara heim, því Finnur Arnór á núna svo mikið af nýju spennandi dóti. Þetta eru nú orðnir svo miklir gaurar að þeir tóku allt dót ofan af dótakistunni og klifruðu upp á til að dansa við Kalla á þakinu.

Ég bjó til pastasalat og kom með, og fékk beiðni um uppskriftina. Ég bjó til tvöfalda uppskrift, sem var líklega óþarfi, en hérna fyrir neðan er hún einföld.


Pastasalat með sólþurrkuðum tómötum.

Uppskrift frá Guðrúnu á sokkaleistunum. (Barefoot Contessa).

  • 250 gr skrúfupasta
  • gróft salt
  • ólífuolía
  • 500 gr tómatar, skornir í meðalstóra bita
  • hálf krukka af góðum svörtum ólífum, t.d. Olive Kalamata frá Montanini sem fæst í Hagkaupum. Taka steinana úr og skera niður í bita.
  • 400-500 gr ferskur Mozzarella ostur. Í Hagkaupum fæst Santa Lucia Mozzarella í bláum pökkum og passa þrír pakkar. Vatninu er hellt af. Skera í meðalstóra bita.
  • 6 sólþurrkaðir tómatar í olíu, sigtaðir og skornir. Enn er verslað í Hagkaup, og keypt krukka af Sólkysstum tómötum í olífuolíu frá heimamerkinu þeirra Ítalíu. Þetta rúmlega hálf krukkan.

Salatdressingin:
  • 5 sólþurrkaðir tómatar í olíu (og við erum nýtin og notum restina af krukkunni góðu. Olían er kreist úr)
  • 2 matskeiðar rauðvínsedik
  • 6 matskeiðar góð olífuolía
  • 1 hvítlauksgeiri, smátt skorinn
  • 1 teskeið af kapers (það fást nokkrar tegundir í Hagkaupum og ég hef enga skoðun, taktu bara ódýrustu og minnstu krukkuna :-)
  • 2 teskeiðar gróft salt
  • slatti af ferskum möluðum svörtum pipar

Og svo:

  • 1 bolli rifinn Parmesan Reggiano (jú jú, fæst í Hagkaupum í svörtu plasti, grjótharður þríhyrningur og fínn, og ég ríf hann heima. Ég er ekki hrifin af grænu dollunum með forrifnum parmesan, ég vil hann gróft rifinn.)
  • 1 búnt ferskt basil, skorið í ræmur (það fæst í svona blómapotti, og þú notar allt, en ekki taka mikið af stilknum).

Leiðbeiningar:
Sjóða pastað í söltu vatni með nokkrum dropum af olífuolíu, skv. leiðbeiningum. 12 mín ca. Sigta og kæla. Setja pastað í stóra skál og bæta við tómötum, olífum, mozzarella, og skornum sólþurrkuðum tómötum.

Dressingin, leiðbeiningar:
Setjið allt í matvinnsluvél og búið til mauk, hætta rétt áður en það verður aaaalveg mjúkt.Ég á ekki svona vél, en blandarinn dugar fínt.

Bætið dressingu í pastað, skellið parmesan og basil og blandið vel.

P.S. Þetta má vel gera um morgunin og bera fram síðdegis, og bíðið þá með parmesan og basil þar til rétt áður en það er borið fram.

Wednesday, July 25, 2007

Miðvikudagurinn - flugið heim

Æ æ, flugið var fullt. Þeir neyddust til að setja mig á viðskiptafarrýmið (business class). Flaug ein heim reyndar, ferðafélagarnir allir með mismunandi tilbakamiða. Ég hafði það því afskaplega notalegt í rúminu mínu og svaf vel og lengi, valdi mér síðan góðgæti af matseðlinum og horfði a eitthverja steypu síðustu klukkutímana áður en lent var á Heathrow.

Aðflugið reyndist aðeins rosalegt því rétt um það bil sem við vorum að lenda reis flugvélin hratt aftur, enda sagði flugmaðurinn að þotan sem var á undan okkur hefði verið eitthvað sein að fara. Jæja, eins gott að bíða þá. Hringsóluðum eitthvað, lentum svo eftir dúk og disk, en þeir keyrðu svo flugvélina ekki upp á byggingunni heldur á eitthvað afskekkt horn á vellinum. Eftir u.þ.b. hálftíma kom stigi, og svo korteri seinna rútur til að koma okkur að byggingunum. Þá voru nett allir búnir að missa af sínu tengiflugi. Ekki ég, miðinn hafði gert ráð fyrir 9 tíma bið, svo nú var ég búin með 2 tíma. En 7 tímar á flugvelli eru aldrei skemmtilegir...

Það var frábært að koma heim og knúsa fjölskylduna. Og leggst nú mikið rykský á ný yfir þenna blogg minn...

Mánudagur og þriðjudagur

Vinna vinna.