Monday, August 02, 2004

Sif komin heim og Dave Brubeck

Við hjónakornin skruppum á jazztónleika á föstudaginn. Dave Brubeck karlinn er orðinn ansi gamall og fótlúinn en þegar hann byrjaði að spila var engra ellimerkja að gæta og við vorum alveg orðlaus yfir þessum fjórmenningum sem spiluðu þarna fyrir okkur langt fram á kvöld. Greinilegt að mennirnir þjást ekki af liðagikt.

Á laugardeginum var okkur svo boðið í afmælisveislu Finns og að sjálfsögðu var það mikið húllumhæ. Við íslendingarnir sátum að sjálfsögðu hríðskjálfandi úti í peysum og kvörtuðum yfir kulda, en ameríkanarnir voru hæstánægðir í sínum stuttbuxum. Finnur var búinn að vera frekar farlama en stóð sig eins og hetja í gestgjafahlutverkinu.

Sif kom svo heim um kvöldið eftir langt flug frá Íslandi og næstum 3 vikna dvöl hjá öfum og ömmum (x4) Hún kvartaði helst yfir að hafa ekki fengið að vera lengur.

Við tókum því svo rólega á sunnudeginum, Una reyndar skrapp í Crate and Barrel, dýrðarbúðina, og við ákváðum að bara rétt svona skreppa með henni. Auðvitað keypti hún sér ekki neitt, og við enduðum á að kaupa borðstofusettið sem við höfum rennt hýru auga til í 2 ár eða svo.