Wednesday, December 29, 2004

Gleðileg jól og svoleiðis

Jæja, gleðileg jól öllsömul. Hérna í Kaliforníu hafa verið sömu grænu jólin og alltaf, Snorri var reyndar ekki úti á bletti að slá á aðfangadag eins og í fyrra en hefði getað verið það. Það er reyndar rigning núna, það er ágætt því hver nennir að fara út að vökva blómin í desember.

Krakkarnir eru í jólafríi heima hjá pabba sínum í dag, og ég í vinnunni. Reyndar hef ég átt erfitt með að slíta mig frá hörmungunum í Asíu og flóðbylgjufrásögnum. Líklega er maður hvergir fullkomlega óhultur fyrir náttúrunni, ekki heldur í rólegheitum á ströndinni í Thailandi. Það situr í mér að einn maður sem slapp lifandi lét hafa eftir sér að sér hefði verið sagt að svona lagað gerðist ekki á Indlandi og næst ætlaði hann sko til Flórída í frí. Líklega er maðurinn ekki búinn að uppgötva enn hvað hann er heppinn að vera á lífi.

Þetta eru annars búin að vera rólegheita jól. Börnin (ég) gáfu manninum Lord of the Rings DVDs og við erum búin að vera að horfa á slátrun orka hvert kvöld undanfarið. Svo fer maður í rúmið með höfuðið fullt af bardagasenum og dreymir eftir því.

Ég er enn að fá jólakort frá vinum og vandamönnum og losna því ekki við jólakortasamviskubitið í bráð. Ég sendi nefnilega ekki út jólakort í ár, kom því hreinlega ekki í verk í desembermánuði. Það er örugglega fullt af fólki sem hefur komið mun fleiru í verk á aðventunni en ég. Ég bakaði þó Sörur, heimsins ljótustu Sörur og dvelja þær nú í dágóðu yfirlæti í frystinum og verður líklega að borða þær í kolniðamyrkri til að koma þeim niður. Eitthvað var að uppskriftinni, eða framkvæmdunum. Góð uppskrift óskast.

Einnig óskast góð danshljómsveit á næsta Þorrablót Íslendingafélagsins í Norður Kaliforníu. http://www.iceland-usa.org/events.htm Þið finnið mig undir About Us.

Hafið það svo gott á nýja árinu.