Tuesday, April 12, 2005

Vorið, blessað vorið

Jæja, eftir mildan vetur er komið milt vor. Það er að segja, grasið er farið að grænka og kirsuberjatrén eru í fullum blóma. Apríl er minn uppáhaldsmánuður í Kaliforníu, allt er ferskt og grænt og fallegt. Það rignir af og til og því eru hæðirnar í kring grænar og fallegar. Þegar líður fram á sumar verður allt orðið gult og skrælnað.

Við hjónakornin keyptum okkur flugmiða til Íslands í byrjun ágúst og eru það fréttir til næsta bæjar því að við höfum ekki ferðast saman til Íslands lengi lengi. Svo lengi að ég man ekki hvenær það gerðist síðast.

Áður en af því verður kemur mamma hingað í maí og tekur svo Sif með sér til Íslands í byrjun júlí. Sif verður því 6 vikur á Íslandi og getur ekki beðið.

Vinnan gengur vel, það er allt á fullu í auglýsingaheiminum og nóg að gera. Þetta er skemmtilegur vinnustaður og alþjóðadeildin er akkúrat það, mjög alþjóðleg.