Wednesday, July 25, 2007

Miðvikudagurinn - flugið heim

Æ æ, flugið var fullt. Þeir neyddust til að setja mig á viðskiptafarrýmið (business class). Flaug ein heim reyndar, ferðafélagarnir allir með mismunandi tilbakamiða. Ég hafði það því afskaplega notalegt í rúminu mínu og svaf vel og lengi, valdi mér síðan góðgæti af matseðlinum og horfði a eitthverja steypu síðustu klukkutímana áður en lent var á Heathrow.

Aðflugið reyndist aðeins rosalegt því rétt um það bil sem við vorum að lenda reis flugvélin hratt aftur, enda sagði flugmaðurinn að þotan sem var á undan okkur hefði verið eitthvað sein að fara. Jæja, eins gott að bíða þá. Hringsóluðum eitthvað, lentum svo eftir dúk og disk, en þeir keyrðu svo flugvélina ekki upp á byggingunni heldur á eitthvað afskekkt horn á vellinum. Eftir u.þ.b. hálftíma kom stigi, og svo korteri seinna rútur til að koma okkur að byggingunum. Þá voru nett allir búnir að missa af sínu tengiflugi. Ekki ég, miðinn hafði gert ráð fyrir 9 tíma bið, svo nú var ég búin með 2 tíma. En 7 tímar á flugvelli eru aldrei skemmtilegir...

Það var frábært að koma heim og knúsa fjölskylduna. Og leggst nú mikið rykský á ný yfir þenna blogg minn...

Mánudagur og þriðjudagur

Vinna vinna.

Monday, July 16, 2007

Marmallapuram

eða var það Mahabalipuram? Eins mikið og þetta nafn þvældist fyrir mér var stefnan tekin á M staðinn fræga snemma á sunnudagsmorgun. Linkur.

Fyrirtækið leigði stærri loftkældan bíl svo vel færi nú um okkur, og svo var lagt af stað. Ég ætla ekki að lýsa bíltúrnum í neinum smáatriðum til að hlífa viðkvæmum lesendum, en þessi bíltúr var svaðalegur.

Mahabalipuram er lítið svæði, en troðfullt af merkjum fornminjum. Það var mjög heitt og rakt og við alltaf fengin að stinga okkur inn í bílinn á milli þess sem við keyrðum á milli minjanna. Í hádeginu fórum við á enn eitt lúxushótelið til að fá okkur öruggan mat að borða, og skemmtum okkur við ágætis Hawaii stemmingu á skreytingum og lagavali. Pearly Shells anyone???

laugardagur

Föstudagurinn var svo skemmtilegur að laugardagurinn fór heldur seint af stað. Við fórum upp aftur til Á og A í hádegismat. Rosalega góður indverskur réttur kallað kjúklinga biryani
og var hann útbúinn af indverska kokkinum þeirra, enda tímafrekur.

Í svona mannmörgu landi er meira um þjónustustörf og stöður, og þó það komi á óvart í byrjun er það vel skiljanlegt og hreinlega nauðsynlegt, enda eru einföldustu hlutir eins og versla í matinn og borga reikninga alls ekkert einfaldir.

Eftir langa og rólega máltíð var skipt liði. Sumir fóru í gullfiskaleiðangur, en ég fór með öðrum á ströndina í Chennai. Marina Beach. Ströndin er mjög mjög breið og löng, og var mér sagt að á kvöldin væru hún hreinlega pökkuð af fólki. Það var svosem alveg nóg af fólki þarna, mikið af sölubásum. Áberandi hvað fólk var flest kappklætt, enda þykir ekki siðlegt að vera í baðfötum. Sjórinn er mjög straumharður og fæstir synda nokkuð út heldur eru bara að leika sér í flæðarmálinu. Hér og þar sáum við pör sitja saman og rabba, en ströndin er hinn óopinberi para-staður, þar sem fólk getur talað saman og kynnst svolítið, en það er mjög erfitt að gera í hinu reglusama og fjölmenna indverska samfélagi.

Seinna um kvöldið fórum við í tónlistarhús og hlustuðum á söngleikjasúpu (nokkur lög úr hinum og þessum söngleikjum) sem var alveg ágætt. Mjög mjög seint fórum við svo og fengum okkur að borða á Park hótelinu sem er nýtískulegt og fínt, og bauð upp á mjög góðan mat. Mér leist miklu betur á Park hótelið en Sheraton, þannig ef ég ætti val myndi ég velja það heldur.

leikið sér

Á föstudagskvöldið var hittingur hjá öðrum Íslendingum á svæðinu, Ásgeiri og Anitu. Það var skemmt sér yfir inverskum pepperoni pizzum, skemmtilegu Pictionary spili, Kingfisher bjór, og svo þegar líða tók á nóttina skipt yfir í PS2 Singstar og dansmottur. Hið ágætasta kvöld og mikið hlegið. Sama hvort er á Indlandi eða Íslandi þá er spilakvöld alltaf skemmtilegt. Ágætt líka að þau búa á efstu hæðinni í sama húsi og Tinna og EC er til húsa, svo það var bara að labba niður stigann til að fara "heim" að sofa.

ekkert vín í Wine Shop

Jæja, á fimmtudag fór ég loksins í "vinnuna", þ.e. á skrifstofuna í stað þess að vera á fundum á hótelinu. Ákvað líka að tékka mig út af hótelinu og gista það sem eftir væri hjá samstarfskonu minni Tinnu, sem býr í íbúð í sama húsi og skrifstofan er í. Mjög hentugt. Reyndar var önnur fundahrina á föstudaginn í öðru hóteli, en svo tékkaði ég mig út, og flutti mitt hafurtask í indverska íbúð.

Íbúðin er stór og rúmgóð, 3 svefnherbergi öll með sér baði, og mér er sagt að það væru venjulega margar indverskar fjölskyldur í svona íbúð. Það er loftkæling í næstu hverju herbergi sem er alger nauðsyn því það er mjög heitt, og mjög rakt. Gólfefnið kom á óvart, marmari á öllum gólfum. Það er víst hagkvæmasta gólfefnið.

Fimmtudagseftirmiðdaginn fór að rigna heldurbetur, þetta sem kallað er monsoon rigning, og við ákváðum að fara í bíltúr til að skoða hana í rigningu. Það kom fljótlega í ljós að ræsin höfðu ekkert undan og vatnselgurinn varð gífurlegur. Indverjar flúðu flestir inn í kaffihús og búðir, en nokkrir þrjóskuðust við og héldu áfram að selja ávexti og grænmeti þrátt fyrir að vatnið flæddi allt um kring. Á fimmtudagskvöldið smakkaði ég svo indverskt vín, en vínrækt er víst að byrja hér eftir að nokkrir tölvunarfræðingar komu til baka og tóku með sér Napa Valley plöntur. Það gengur víst vel en þeir selja aðallega á hótelin.

Indverska ríkisstjórnin er eins og sú íslenska og hefur einokun á vínsölu og hér eru Wine Shops, en það fæst ekkert vín í Wine Shop, bara bjór og viskí, enda ekkert í kúltúrnum hér að þamba vín. Margir hreinlega sem drekka aldrei dropa, enda margir múslimar á svæðinu.

Wednesday, July 11, 2007

Má bjóða yður gulrót?

Það eru 12,000,000 grænmetissölumenn á Indlandi. Tólf milljón manns!!!!!! Að selja grænmeti!

Tuesday, July 10, 2007

Pode ter vida em Marte? (Is there life on Mars?)

Í kvöld eftir vinnu ákváðum við að labba út á tælenskan stað sem átti að vera í nágrenninu. Það gekk ágætlega að fylgja leiðbeiningunum, en verr gekk að ganga á gangstéttunum á leiðinni. Á endanum gáfumst við upp og gengum á götunni innan um geðveikisumferðina. Allir á flautunni. Bíp bíp.

Gangstéttin var nefnilega ekki hönnuð fyrir gangandi. Fyrir utan að hafa iðulega einhver mannvirki eins og rafmagnsbox og girðingar þvert á gangstéttinni, þá var kanturinn svo hár þar sem innkeyrslur komu inn, að það var hnéhæð að stíga niður á götuna og svo aftur hnéhæðarhátt að stíga upp aftur. Kolniðamyrkrið hjálpaði ekki til.

Maturinn var fínn, ég fékk meira að segja uppáhalds spínatlaufs-lime-kókos-súrsæt-sósa forréttinn minn sem ég man aldrei hvað heitir. Svo löbbuðum við baka til að fá okkur bjór á hótelinu því veitingastaðurinn var vínveitingalaus.

Spjölluðum svo á barnum, sem var með 7 lína klæðalýsingu á proper dress code fyrir karlmenn, og konur 1 línu, vinsamlegast beðnar að vera skrautlegar (decorous). Allt í einu svo slökk á techno tónlistinni og við ærðumst næstum því þegar hávær Mexíkó mariachi tónlist hófst, og til að bæta gráu ofan á svart hóf söngkona í Mexíkó-kúrekaklæðum með risahatt upp raust sína og ´´skemmti´´ okkur með spænsku kúreka-jóðli með indverskum hreim.

Hún stóð einnig undir klæðareglunum staðarins, mjög skrautleg. Staðurinn tæmdist næstum samstundis, ég flúði þegar hún hóf að steppa í hælaháu hvítu kúrekastígvélunum undir risastórum hvítum gullskreyttum kúrekahatti, og er nú í góðu yfirlæti að hlusta á Sigur Rós sem er með kvikmyndatónlistina við Life Aquatic sem er núna í sjónvarpinu, stórundarleg mynd en samt á dularfullan hátt skemmtileg. Minnti mig á að ég ætlaði alltaf að kaupa CD með þessum stórskemmtilegu Seu Jorge útgáfum af David Bowie lögum sem eru sungin í myndinni.

Hvers vegna gengur David Bowie upp á portúgölsku, en mexíkótónlist á Indlandi ekki?

Monday, July 09, 2007

hver gengur í buxunum og hver er á bleyjunni?

Ég hafði það nú kannski aðeins of gott í gær. Ég gat ekki sofnað auðvitað þegar ég fór að sofa, og var andvaka til 5 um morguninn. Skemmti mér við að horfa á indverskt sjónvarp, reyndar eru auglýsingarnar skemmtilegri en sjónvarpsefnið, en loks fann ég einhverja ameríska steypu á einni rásinni.

Ég var því frekar jetlögguð og mygluð í morgunfundunum, og ekki bætti úr skák að mér var hálf bumbult. Það mátti búast við því, meðan meltingarkerfið venst inversku gerlunum.

En í lok dagsins fór allt slen, og við enduðum daginn eftir langar fundarsetur á að taka leigubíl í næstu verslunarmiðstöð (City Center). Leigubíllinn sem keyrði okkur var loftkældur og rúmgóður og ég heyrði mér til stórkostlegrar furðu að leigubílstjórinn hafði keyrt samstarfsfólk mitt á fundinn um morguninn, síðan beðið fyrir utan í ca 8 tíma uns fundarhrinan var búin og fólk kom út. Ímyndið ykkur reikninginn við að láta Hreyfilsbíl bíða í 8 tíma!! Hér var það um 1500 krónur, og víst minna vesen en að fá annan fínan og loftkældan bíl í lok dagsins.

Hann keyrði okkur af öryggi í gegnum þessa geggjuðu umferð, og verslunarmiðstöðin var verlulega fín og ný (og mjög vestræn). Ég á nú örugglega eftir að kíkja þangað aftur, en í kvöld var ég bara að skoða og borða með nokkrum starfsfélögum.

Undir matnum var rætt um indverska hætti, og ýmislegt skondið bar á bóga. T.d. að konur borga almennt heimanmund með sér þegar þær giftast, stórar fjárhæðir, þeim ljósari maðurinn á húð þeim hærri heimanmundurinn sem þær borga. Giftingar eru yfirleitt skipulagðar af foreldrum. Svo þegar þær eru búnar að ´´kaupa´´ mennina, þá snýst þetta við, og þær hætta að vinna ef þeir vilja það, eða flytja hvert sem er sem vinnan hans krefst. Læknum er bannað að segja fólki frá kyni ófædds barns, og missa læknaleyfið ef þeir gera það, sem segir ýmislegt.

Þrátt fyrir þetta misræmi á heimilinum milli stöðu kvenna og karla er þetta ekki á vinnustöðum. Þar tíðkast ekki að borga konum og körlum mismunandi fyrir sömu vinnu, og þær eiga sömu starfsmöguleika og karlarnir, amk í tæknigeiranum. Svo fara þær heim eftir vinnu til mannanna (amk þær eiga karlmenn sem leyfðu þeim náðarsamlegast að vinna) og eru þar #2.

Væri ekki tilvalið að blanda þessu, koma með smá jafnrétti í hjónaböndin á Indlandi, og laga launamuninn og möguleikana á Íslandi? Við getum kallað það Ínslenska kerfið.

Konurnar hér eru flestar í hefðbundnum inverskum klæðnaði, kjól og alltaf buxum undir í stíl, en karlarnir eru í vestrænum (buxum og skyrtu) og yfirvaraskeggið ómissandi. Þegar ég spurði hvað væri sambærilegur indverskur klæðnaður á karlmenn var mér bent á mann á hjóli, í bara eins og bleyju. Munið eftir Gandhi? Hann gekk í hvítri dulu og nú skildi ég betur hvers vegna indverskum mönnum fannst hentugra að skipta yfir í vestræna fatamenningu. Gæti ekki séð fyrir mér karlmannsbankastarfsmenn í bleyjunni einnisaman, hvað þá lækna og lögfræðinga.

Annars eru hér fleiri störf heldur en læknar og lögfræðingar. Það eru hurðaopnarar, gangstéttasóparar, lyftuverðir, menn við sjálfvirku bílastæðisopnarana sem hafa það að atvinnu að ýta á takkann fyrir þig og rétta þér miðann sem kemur út, og fleiri skemmtileg atvinnutækifæri. Eins gott að gera þjóðfélagið ekki of skilvirkt og tæknina ekki of sjálfvirka þegar þú þarft að sjá milljarði manna fyrir atvinnu.

Sunday, July 08, 2007

Simon & Garfunkel

Fór og faxaði einu blaði áðan. Allar línur uppteknar. Þetta er svolítið skondið. Einfaldir hlutir eins og að senda fax taka langan tíma.

Fórum síðan 3 saman að borða. Hvað eigum við að borða? Indverkst? Þetta var ekki eins fyndið og til stóð þar sem boðið er upp á allskonar mat, vestrænan, oriental, og jú, líka indverskt. Fengum frábæran mat, og nú reynir á hvort ég fæ í magann því ekki var allt eldað.

Indverskur gosdrykkur með kúmenbragði var sístur, linsubaunakássa og tofu í smjörkarrí best. Eftirréttirnir voru svo dísætar indverskar kökur, ég skil ekki hvernig hægt er að búa til svona sæta eftirrétti, án þess að hafa þá 100% flórsykur. Kannski var það raunin.

Latté í lokin, alveg skelfilegt. Maður fer víst ekki til Indlands fyrir kaffið. Besta að prófa te á morgun.

Undir borðum rauluðu tveir Indverskir gítarleikarar Simon & Garfunkel lög. I´m going to Graceland. Í horninu stóðu tveir kokkar sem virtust aðallega vera skraut, ásamt Barilla pastapökkunum í hillunum á bak við þá. Konurnar svo gulli skreyttar að glampar á, og allar fengum við rós í lokin. Í bakgrunnin rauluðu Indverjarnir: ''Diamonds on the soles of her shoes.'' Það á við hérna í musteri öfganna.

Chennai, India

Chennai (áður Madras) á korti


Flugið var þrælskipulagt. Haldið af stað með seinniparts föstudagsvélinni til Heathrow, sofið á Radisson Heathrow til að gefa okkur nægan tíma til að fara í gegnum nauðsynleg öryggistékk hjá British Airways. Svo þegar til kom var þetta alveg meira en nægur tími því þrátt fyrir blaðagreinar um hert öryggi og langar raðir í terminal 4 voru fáar raðir að sjá. Ætli fólk sé líka að hætta við að fljúga?

Ég var reyndar tekin í random check og fékk ókeypis röntgenmyndatöku með hendur upp í loft, en svona lagað hefur maður bara tekið í sátt og ekkert um það að kvarta.

Ég lenti reyndar í þeim leiðindum að uppgötva í London að pin númerið á kreditkortinu virkar ekki, þrátt fyrir að hafa gert sérferð í bankann á föstudaginn til að tékka á því, en úr því rætist nú líklega á næstunni.

Semsagt, flugið til Indlands tók 10 tíma, beint frá London til Chennai. Sætið mitt var á World Traveller Plus, og trúið mér að þetta PLUS er algjör plús. Þetta er semsagt millistig milli economy og business klass, maður fær miklu miklu meira fótapláss, mun þægilegra sæti, og þetta skipti algerlega sköpum. Ferðafélagi minn einn fékk ekki svona sæti og ég skipti við hann í smátíma og fann greinilega mikinn mun á þrengslunum.

Eftir tiltölulega þægilegt flug lentum við í Chennai. Staðartími 4 að morgni. Það voru langar biðraðir í gegnum vegabréfaskoðun, og ég lenti á mesta fýlupúka veraldar. Hann hreyfði sig viljandi rosalega hægt, brosti aldrei, sagði ekki neitt, starði á passann í óratíma án þess að hreyfast, missti síðan pennann (líklega viljandi) og var óratíma að potast við að ná honum upp, henti síðan passanum í mig og ég hreinlega þurfti að grípa hann.

Ekkert Welcome to India. Ekki orð. Incredible India slóganið á pappírum og í sjónvarpi en þeir hafa greinilega ekki komið vegabréfastarfsfólkinu inn í pakkann enn.

Svo tók klukkutíma að fá töskuna, en hún kom nú samt á endanum. Í framtíðinni ef mig syfjar þá tel ég ekki kindur, bara töskur. Hring eftir hring eftir hring. Þetta er allt mjög mikil útlönd, hreinlætisstigið nokkrum skrefum neðan en í Evrópu, kvenkyns tollarar í skjannahvítum einkennis-Sari með tollaraborðana á öxlunum. Ég var of þreytt til að taka myndir.

Svo út, mannfjöldinn óskaplegur fyrir utan að bíða eftir langþreyttum, töskuóðum ættingum og vinum, og við fundum fljótlega 3 einkennisklædda einkabílastjóra með nöfnin okkar. Ég segi einkabílstjóra því hótelið hafði fengið pöntum um að sækja Mr. Finnsdottir, 3 farþega, Mr. Karlsson 3 farþega og Mr Fridriksson, 3 farþega. Þeim reiknaðist því til að við værum 9 og sendu þrjá bíla. Ég elti þæg bara minn bílstjóra sem hélt á minni tösku og spjallaði við hann á 30 mínútna jesús-minn-umferðin-passaðu-þig-bíltúrinn að hótelinu. Við lentum í myrkri en það birti á leiðinni á hótelið. Ég horfði mest bara út um gluggana á bílnum, til hliðar, til að hugsa ekki um of um þá staðreynd að við vorum 5 ''öku''tæki hlið við hlið á því sem virtist vera 2 akreina götu.

Að segja að hér séu mestu öfgar sem ég hef séð (mun meiri en Peking) er ekki ýkjur. Það var eldsnemma morguns og heilu fjölskyldurnar í rólegheitunum að fara á fætur á gangstéttunum, þar sem þau greinilega búa. Kona að rísa á fætur upp af pappaspjaldi. Ætli það sé aleigan?

Húsin á leiðinni flest ansi aum, risa auglýsingaskilti ofan á hálfbyggðum, eða hálfhrundum hjöllum. Verið að byggja hér og þar. Á götunum vörubílar, rútur, strætóar, fótgangandi, þriggja hjóla leigubílar, reiðhjól, allt saman í kappakstri og geðveik umferð klukkan 5 að morgni á sunnudegi. Ég veit ekki hvernig umferðin verður á mánudaginn, en miðað við þetta verður hún ólýsanleg.

Það búa rúmlega 4 milljónir manns í borginni skv opinberum tölum, en ekki veit ég hvort þeir telja þá sem eiga ekkert hús. Amk trúi ég því ekki.

Hótelið var notalegt, 5 stjörnu Sheraton, loftkælt. Svaf í lengri tíma, fór í langt bað, fékk mér morgunmat klukkan 4 eftir hádegi. Maturinn á room-service matseðlinum mjög vestrænn. Hvort viltu djúpsteiktan kalamari eða pizzu? Bæklingurinn sem liggur á borðinu heldur því fram að Sheraton leyfi þér að njóta personal space. Ég bara gerði það í dag.

...í stuttu máli

Síðan ég bloggaði síðast fluttum við til Íslands, lifðum af fyrsta myrkraveturinn án meiriháttar áfalla, skiptum bæði um vinnu og höfðum það almennt gott. Og nú skal bloggað um Indland.