Chennai (áður Madras) á kortiFlugið var þrælskipulagt. Haldið af stað með seinniparts föstudagsvélinni til Heathrow, sofið á Radisson Heathrow til að gefa okkur nægan tíma til að fara í gegnum nauðsynleg öryggistékk hjá British Airways. Svo þegar til kom var þetta alveg meira en nægur tími því þrátt fyrir blaðagreinar um hert öryggi og langar raðir í terminal 4 voru fáar raðir að sjá. Ætli fólk sé líka að hætta við að fljúga?
Ég var reyndar tekin í random check og fékk ókeypis röntgenmyndatöku með hendur upp í loft, en svona lagað hefur maður bara tekið í sátt og ekkert um það að kvarta.
Ég lenti reyndar í þeim leiðindum að uppgötva í London að pin númerið á kreditkortinu virkar ekki, þrátt fyrir að hafa gert sérferð í bankann á föstudaginn til að tékka á því, en úr því rætist nú líklega á næstunni.
Semsagt, flugið til Indlands tók 10 tíma, beint frá London til Chennai. Sætið mitt var á World Traveller Plus, og trúið mér að þetta PLUS er algjör plús. Þetta er semsagt millistig milli economy og business klass, maður fær miklu miklu meira fótapláss, mun þægilegra sæti, og þetta skipti algerlega sköpum. Ferðafélagi minn einn fékk ekki svona sæti og ég skipti við hann í smátíma og fann greinilega mikinn mun á þrengslunum.
Eftir tiltölulega þægilegt flug lentum við í Chennai. Staðartími 4 að morgni. Það voru langar biðraðir í gegnum vegabréfaskoðun, og ég lenti á mesta fýlupúka veraldar. Hann hreyfði sig viljandi rosalega hægt, brosti aldrei, sagði ekki neitt, starði á passann í óratíma án þess að hreyfast, missti síðan pennann (líklega viljandi) og var óratíma að potast við að ná honum upp, henti síðan passanum í mig og ég hreinlega þurfti að grípa hann.
Ekkert Welcome to India. Ekki orð. Incredible India slóganið á pappírum og í sjónvarpi en þeir hafa greinilega ekki komið vegabréfastarfsfólkinu inn í pakkann enn.
Svo tók klukkutíma að fá töskuna, en hún kom nú samt á endanum. Í framtíðinni ef mig syfjar þá tel ég ekki kindur, bara töskur. Hring eftir hring eftir hring. Þetta er allt mjög mikil útlönd, hreinlætisstigið nokkrum skrefum neðan en í Evrópu, kvenkyns tollarar í skjannahvítum einkennis-Sari með tollaraborðana á öxlunum. Ég var of þreytt til að taka myndir.
Svo út, mannfjöldinn óskaplegur fyrir utan að bíða eftir langþreyttum, töskuóðum ættingum og vinum, og við fundum fljótlega 3 einkennisklædda einkabílastjóra með nöfnin okkar. Ég segi einkabílstjóra því hótelið hafði fengið pöntum um að sækja Mr. Finnsdottir, 3 farþega, Mr. Karlsson 3 farþega og Mr Fridriksson, 3 farþega. Þeim reiknaðist því til að við værum 9 og sendu þrjá bíla. Ég elti þæg bara minn bílstjóra sem hélt á minni tösku og spjallaði við hann á 30 mínútna jesús-minn-umferðin-passaðu-þig-bíltúrinn að hótelinu. Við lentum í myrkri en það birti á leiðinni á hótelið. Ég horfði mest bara út um gluggana á bílnum, til hliðar, til að hugsa ekki um of um þá staðreynd að við vorum 5 ''öku''tæki hlið við hlið á því sem virtist vera 2 akreina götu.
Að segja að hér séu mestu öfgar sem ég hef séð (mun meiri en Peking) er ekki ýkjur. Það var eldsnemma morguns og heilu fjölskyldurnar í rólegheitunum að fara á fætur á gangstéttunum, þar sem þau greinilega búa. Kona að rísa á fætur upp af pappaspjaldi. Ætli það sé aleigan?
Húsin á leiðinni flest ansi aum, risa auglýsingaskilti ofan á hálfbyggðum, eða hálfhrundum hjöllum. Verið að byggja hér og þar. Á götunum vörubílar, rútur, strætóar, fótgangandi, þriggja hjóla leigubílar, reiðhjól, allt saman í kappakstri og geðveik umferð klukkan 5 að morgni á sunnudegi. Ég veit ekki hvernig umferðin verður á mánudaginn, en miðað við þetta verður hún ólýsanleg.
Það búa rúmlega 4 milljónir manns í borginni skv opinberum tölum, en ekki veit ég hvort þeir telja þá sem eiga ekkert hús. Amk trúi ég því ekki.
Hótelið var notalegt, 5 stjörnu Sheraton, loftkælt. Svaf í lengri tíma, fór í langt bað, fékk mér morgunmat klukkan 4 eftir hádegi. Maturinn á room-service matseðlinum mjög vestrænn. Hvort viltu djúpsteiktan kalamari eða pizzu? Bæklingurinn sem liggur á borðinu heldur því fram að Sheraton leyfi þér að njóta personal space. Ég bara gerði það í dag.